LÖG NEMENDAFÉLAGS HÁSKÓLANS Á BIFRÖST

I. kafli - Heiti félags, heimili og hlutverk.

 

1. gr.

Félagið heitir Nemendafélag Háskólans á Bifröst og er skammstöfun félagsins NFHB. Enskt heiti félagsins er The Student Association of Bifröst University. Heimili þess og varnarþing er á Bifröst, Borgarbyggð.

 

2. gr.

Hlutverk Nemendafélagsins er að standa vörð um hagsmuni nemenda við Háskólann á Bifröst og vinna ætíð að bættum hag þeirra. Auk þess er hlutverk félagsins að auka einingu meðal félagsmanna, vera vettvangur þeirra sem heildar innan háskólans sem utan og stuðla að upplýstri akademískri umræðu meðal félagsmanna.

 

II. kafli - Aðild að félaginu.

 

3. gr.

Allir þeir er stunda nám við Háskólann á Bifröst njóta aðildar að félaginu.

 

III. kafli - Boðun funda, kosninga og tilkynninga

 

4. gr.

Fundi og kosningar skal boða með sannanlegum hætti, til dæmis í gegnum tölvupóst á póstþjóni Háskólans á Bifröst, og telst þá boðunin lögleg. Félagsmenn geta ekki gert kröfu um ólögmæti funda eða kosninga hafi þeim ekki borist tilkynning á póstþjóni.

 

IV. kafli - Aðalfundur.

 

5. gr.

Aðalfundur skal haldinn í lok hvers starfsárs stjórnar Nemendafélagsins, þó aldrei síðar en á sumarönn. Til aðalfundar skal boða skv. 4. gr. hið minnsta tveimur vikum fyrir áætlaðan fundardag ella telst hann ólögmætur. Dagskrá fundarins skal fylgja fundarboði. Formaður setur fundinn og tilnefnir fundarstjóra sem stýrir umræðum. Á aðalfundi skal fylgja almennum fundarsköpum. Til þess að tillaga á aðalfundi hljóti samþykki þarf samþykki meirihluta fundarmanna. Slíkt á þó ekki við um tillögur um breytingu á lögum félagsins sem fara eftir lögum þessum.

 

6. gr.

Starfstími stjórnar Nemendafélagsins skal vera á milli aðalfunda, þó aldrei lengur en til 31. maí á næsta almanaksári eftir að stjórn tekur við.

 

7. gr.

Lok reikningsárs skal miða við 1. maí. Reikningar skulu yfirfærðir af kjörnum skoðunarmanni reikninga. Leitast skal við að fyrri stjórn geri upp þá reikninga sem tilheyra starfsári hennar. Ef afgangur verður af rekstri skal hann færast yfir á næsta starfsár.

 

8. gr.

Fráfarandi ritari skrifar fundargerð aðalfundar.

Dagskrá aðalfundar er eftirfarandi:

  1. Kjör fundarstjóra.

  2. Formaður Nemendafélags Háskólans á Bifröst fer yfir starf ársins.

  3. Fjármálastjóri skilar skýrslu um fjármál ársins.

  4. Lagabreytingar.

  5. Skýrsla kjörstjórnar um niðurstöður kosninga.

  6. Önnur mál.

  7. Stjórnarskipti.

  8. Fundi slitið.

 

9. gr.

Fráfarandi stjórn skal halda fund með nýkjörinni stjórn innan 10 daga frá aðalfundi. Þar lætur hún nýja stjórn fá gögn er viðkoma Nemendafélaginu. Fráfarandi stjórn er skylt að kynna störf félagsins ítarlega fyrir nýrri stjórn og undirstrika mikilvægi þess að farið sé eftir lögum félagsins í hvívetna.

 

V. kafli - Stjórn félagsins.

 

10. gr.

Stjórn Nemendafélagsins skal skipuð sex nemendum við Háskólann á Bifröst. Stjórn félagsins skipa formaður, fjármálastjóri, markaðsstjóri, viðburðastjóri, hagsmunafulltrúi og ritari.

 

11. gr.

Formaður hefur yfirumsjón með starfsemi á vegum félagsins og ber hann endanlega ábyrgð á málefnum þess. Formaður Nemendafélagsins boðar til stjórnarfunda og gegnir stöðu fundarstjóra á þeim fundum. Formaður kemur fram fyrir hönd Nemendafélagsins í samskiptum við aðila innan sem utan Háskólans á Bifröst. Formaður situr í háskólaráði Háskólans á Bifröst og einnig í stjórn Hollvinasamtaka Bifrastar. Formaður hefur prókúru fyrir félagið ásamt fjármálastjóra og ritar firma félagsins.

 

12. gr.

Fjármálastjóri hefur umsjón með fjárráðum og er ábyrgur fyrir bókhaldi félagsins. Fjármálastjóri útbýr fjárhagsáætlun Nemendafélagsins og leggur hana fyrir stjórn til samþykktar fyrir lok septembermánaðar. Fjármálastjóri hefur prókúru fyrir félagið ásamt formanni. Enn fremur skal fjármálastjóri vera formanni innan handar og gegna starfi formanns í forföllum formanns.

 

13. gr.

Markaðsstjóri ber ábyrgð á og hefur yfirumsjón með öllum markaðs- og útgáfumálum félagsins. Markaðsstjóri skal sjá um heimasíðu félagsins og alla samfélagsmiðla sem félagið er á hverju sinni.

 

14. gr.

Viðburðastjóri er formaður viðburðanefndar og ber ábyrgð á skipulagningu viðburða fyrir nemendur. Viðburðastjóri skal enn fremur hafa umsjón með kynningum á Nemendafélaginu.

 

15. gr.

Hagsmunafulltrúi er tengiliður allra nemenda við Nemendafélagið. Skal hann vinna að hagsmunamálum nemenda og gæðamálum náms við Háskólann á Bifröst. Hann skal hafa frumkvæði að úrbótum hverju sinni, hvort sem það er í samvinnu við kennslusvið eða einstaka deild innan háskólans. Hagsmunafulltrúi situr í háskólaráði Háskólans á Bifröst og er formaður gæðanefndar Nemendafélagsins. Aukinheldur situr hann í fulltrúaráði Landssamtaka íslenskra stúdenta (LÍS) fyrir hönd Nemendafélagsins ásamt hagsmunafulltrúa síðastliðins starfsárs. Þurfi annað hvort hagsmunafulltrúi síðastliðins starfsárs eða hagsmunafulltrúi yfirstandandi starfsárs að hverfa frá áður en skipunartíma viðkomandi í fulltrúaráði LÍS lýkur tekur stjórn Nemendafélagsins ákvörðun um hver tekur við skyldum viðkomandi á meðan millibilsástand stendur yfir. Verði breytingar á lögum LÍS sem hafa áhrif á lög þessi skal leitast við að uppfæra þau sem fyrst.

 

16. gr.

Ritari sér til þess að lög félagsins séu uppfærð í samræmi við þær breytingar sem kunna að verða og séu birt félagsmönnum með tryggilegum hætti. Þar að auki heldur ritari utan um öll gögn Nemendafélagsins. Ritari skal skrá fundargerðir á stjórnarfundum. Að auki skal ritari sinna öðrum tilfallandi störfum.

 

17. gr.

Hverjum stjórnarmanni í stjórn Nemendafélagsins er heimilt að tilnefna áheyrnarfulltrúa til þess að mæta á fundi stjórnar Nemendafélagsins. Sá stjórnarmaður sem tilnefnir áheyrnarfulltrúann tilgreinir við hvaða mál á fundardagskrá hann óskar eftir því að áheyrnarfulltrúi sé á fundi. Eftir að áheyrnarfulltrúi hefur setið þá fundarliði sem hann var beðinn um að sitja þá víkur hann af fundi. Félagsmenn Nemendafélagsins geta með undirskrift hið minnsta 5% félagsmanna tilnefnt sér áheyrnarfulltrúa til þess að mæta á fundi stjórnar nemendafélagsins. Um þann aðila gilda sömu reglur og ef stjórnarmaður tilnefnir áheyrnarfulltrúa. Áheyrnarfulltrúi hefur tjáningar- og málfrelsi á fundum en ekki atkvæðisrétt. Um áheyrnarfulltrúa á fundum stjórnar Nemendafélagsins gilda sömu þagnarskylduákvæði laga þessa og eiga við aðra stjórnarmenn.

18. gr.

Stjórn nemendafélagsins skal tilnefna sér skoðunarmann í upphafi starfsárs til þess að fara yfir ársreikning félagsins í lok starfsárs stjórnar.

 

19. gr.

Formaður Nemendafélagsins skal boða til stjórnarfunda að minnsta kosti einu sinni í mánuði en að jafnaði á tveggja vikna fresti. Boða skal til stjórnarfundar með minnst tveggja sólarhringa fyrirvara. Fundur skal boðaður með tilkynningu á fésbókarsíðu stjórnar Nemendafélagsins eða í gegnum póstþjón Háskólans á Bifröst. Senda skal út fundardagskrá og önnur fundargögn til allra stjórnarmanna hið minnsta einum sólarhring fyrir áætlaðan fundardag. Til að fundur sé lögmætur þurfa að minnsta kosti 4/5 stjórnarmanna að sitja fundinn. Á stjórnarfundum ræður 3/5 hluti atkvæða úrslitum mála. Skal slík kosning fara fram með handauppréttingu nema að stjórnarmaður óski sérstaklega eftir leynilegri kosningu. Ef atkvæði falla að jöfnu skal atkvæði formanns gilda tvöfalt. Falli atkvæði að jöfnu í leynilegri kosningu þá þarf formaður að greina frá sínu atkvæði. Fari meira en helmingur stjórnarmanna fram á stjórnarfund skal hann haldinn innan tveggja sólarhringa.

 

20. gr.

Stjórnarmaður Nemendafélagsins getur lýst vantrausti á annan stjórnarmann leggi hann fram tillögu þess efnis skriflega og ítarlega rökstudda. Tillaga skal lögð fram fyrir formann einum sólarhring fyrir boðaðan stjórnarfund. Sé ætlunin að lýsa vantrausti á formann skal tillagan lögð fram fyrir fjármálastjóra eða hagsmunafulltrúa eftir atvikum og skal þá sá er tekur við tillögunni upplýsa formann við upphaf stjórnarfundar. Skal sá er vantrausti er lýst á víkja sæti ef 3/5 stjórnar samþykkir vantraust. Stjórn  Nemendafélagsins skal auglýsa viðkomandi embætti við fyrsta tækifæri.

 

21. gr.

Ef félagsmaður Nemendafélagsins hyggst lýsa vantrausti á stjórnarmann skal sá hinn sami leggja fram skriflega beiðni til stjórnar um félagsfund, með undirskrift 10% félagsmanna hið minnsta og skal þá stjórn boða til fundarins. Stjórn Nemendafélagsins er skylt að halda slíkan fund innan tveggja vikna frá framlagningu beiðninnar. Boða skal til fundarins samkvæmt 4. gr. með viku fyrirvara hið minnsta þar sem efni fundarins er tilgreint. Dagskrá fundarins skal fylgja fundarboði. Samþykki félagsfundur vantrauststillögu með 2/3 hluta atkvæða telst tillagan samþykkt. Stjórn Nemendafélagsins skal auglýsa viðkomandi embætti við fyrsta tækifæri.

 

22. gr.

Vilji stjórnarmaður víkja sæti skal hann tilkynna stjórn Nemendafélagsins það skriflega að minnsta kosti einni viku áður en hann víkur sæti. Skal viðkomandi nýta þann tíma til þess að ganga frá þeim málum sem viðkoma Nemendafélaginu og hann hefur með höndum. Stjórn Nemendafélagsins skal auglýsa viðkomandi embætti við fyrsta tækifæri. Víki formaður sæti skal fjármálastjóri taka sæti formanns og þar með öllum hans réttindum og skyldum.

 

23. gr.

Stjórn Nemendafélagsins er heimilt að skipa í laus embætti úr hópi félagsmanna sem hafa kjörgengi, að því gefnu að embættið hafi áður sannanlega verið auglýst án árangurs.

VI. kafli - Félagsfundir

 

24. gr.

Stjórn félagsins getur boðað til almenns félagsfundar til að ræða málefni félagsins og ákvarðanatöku í þeim málum er stjórn telur eðlilegt að fá álit almennra félagsmanna. Til félagsfundar skal boða með viku fyrirvara hið minnsta. Formaður Nemendafélagsins setur fundinn og tilnefnir fundarritara og fundarstjóra sem stýrir umræðum. Framlögð tillaga á félagsfundi hlýtur samþykki ef 2/3 hlutar fundarmanna greiða henni atkvæði sitt. Á félagsfundum skal fylgja almennum fundarsköpum.

 

25. gr.

Félagsmenn Nemendafélagsins geta með undirskrift hið minnsta 5% félagsmanna, en þó aldrei minna en undirskrift 30 félagsmanna, krafist almenns félagsfundar til að ræða málefni er varða félagið. Beiðni um slíkan fund skal vera skrifleg og í henni skal koma fram efni og ástæða fundarins. Stjórn Nemendafélagsins er skylt að halda slíkan fund innan viku frá framlagningu beiðninnar. Stjórn Nemendafélagsins skal boða til fundarins sem fyrst með tryggilegum hætti, t.d. með tölvupósti, og tilgreina efni fundarins. Dagskrá fundarins skal fylgja fundarboði. Ekki er heimilt að taka fyrir önnur mál á félagsfundi, er félagsmenn hafa beðið um, en þau er koma fram í fundarboði.

VII. kafli - Samtök, félög, nefndir, ráð og klúbbar.

 

26. gr.

Nemendafélag Háskólans á Bifröst er æðsti vettvangur nemenda og þangað sækja samtök, félög, nefndir, ráð og klúbbar fjármagn eða aðstoð eftir því sem við á.

 

27. gr.

Nemendafélag Háskólans á Bifröst er hluti af Landssömtökum íslenskra stúdenta, skammstafað LÍS. Stjórn Nemendafélagsins er skylt að skipa sér aðalfulltrúa og einn varamann fyrir hvern fulltrúa Nemendafélagsins í fulltrúaráði LÍS, þó með gefnu tilliti til 14. gr. þessara laga. Þá er stjórn Nemendafélagsins enn fremur skylt að skipa aðila í þau sæti þingfulltrúa sem Nemendafélagið hefur á landsþingi LÍS. Þeir aðilar er gegna hlutverki fulltrúa fyrir Nemendafélagið í fulltrúaráði LÍS ber skylda að upplýsa stjórn Nemendafélagsins um störf sín fyrir LÍS og almennt um starf LÍS.

 

28. gr.

Nemendafélagið er hluti af Hollvinasamtökum Háskólans á Bifröst og situr formaður Nemendafélagsins í stjórn þess fyrir hönd nemendafélagsins.

 

29. gr.

Í háskólaráði Háskólans á Bifröst sitja fyrir hönd nemenda að jafnaði hagsmunafulltrúi og formaður Nemendafélagsins ásamt einum grunnnema, einum meistaranema og einum háskólagáttarnema. Skulu þrjár síðastnefndu stöðurnar auglýstar. Bregða má frá þeirri reglu að hagsmunafulltrúi og formaður sitji í háskólaráði og auglýsa þá fjórar eða fimm stöður.

 

30. gr.

Viðburðastjóri er formaður viðburðanefndar. Nefndin hefur umsjón með öllum viðburðum Nemendafélagsins í samráði við stjórn nemendafélagsins. Viðburðanefnd skal auglýsa viðburði og dagskrá nemendafélagsins. Viðburðastjóri tilnefnir nemendur í viðburðanefnd eftir þörfum.

31. gr.

Í sjálfbærninefnd sitja einungis þeir sem koma með sinn eigin stól. Sjálfbærninefnd starfar á milli sex og sjö á morgnanna í aðstöðu nemendafélagsins og ber að spila þrjá píluleiki á þeim tíma. Önnur störf sjálfbærninefndar eru engin. Um leið og almennur félagsmaður tekur eftir þessari grein laganna og ber efni hennar undir stjórn félagsins fellur greinin niður út það starfsár. Falli greinin ekki úr gildi tvö starfsár í röð ber stjórn nemendafélagsins á þriðja starfsárinu ábyrgð á því að auglýsa lög Nemendafélagsins betur.

 

32. gr.

Jakabólsráð skipa að jafnaði formaður og varaformaður. Þeim er þó heimilt að skipa sér meðstjórnendur telji þeir þörf á slíku. Jakabólsráð sér um líkamsræktaraðstöðu Bifrastar.

33. gr.

Samræmingarnefnd er vettvangur kjörinna fulltrúa nemenda til að samræma aðgerðir og stefnumörkun fyrir háskólasamfélagið á Bifröst og sinna hagsmunamálum nemenda. Í samræmingarnefnd situr stjórn Nemendafélagsins ásamt fulltrúum nemenda í háskólaráði, nemendum í gæðanefnd Nemendafélagsins, áfrýjunarnefnd, jafnréttisnefnd, deildarráði hvors sviðs og íbúaráði sem og formaður Jakabólsráðs. Samræmingarnefnd skal funda að jafnaði einu sinni á haustönn og einu sinni á vorönn. Formaður Nemendafélagsins telst formaður samræmingarnefndar og ber ábyrgð á því að boða til fundar skv. 4. gr. þessara laga. Fundir skulu fylgja almennum fundarsköpum.

 

34. gr.

Hagsmunafulltrúi er formaður gæðanefndar Nemendafélagsins. Nefndin sér um samskipti við skólann fyrir hönd nemenda hvað varðar gæðamál náms við skólann. Að jafnaði skulu vera fjórir nemendur í nefndinni að meðtöldum formanni nefndarinnar. Falli atkvæði að jöfnu á fundi nefndar skal atkvæði formanns gilda tvöfalt.

 

VIII. kafli - Kosningar.

 

35. gr.

Kosningar í stjórn Nemendafélags Háskólans á Bifröst skulu fara fram fyrir aðalfund sbr. 6. gr laga þessara. Boða skal til kosninga með að minnsta kosti þriggja vikna fyrirvara. Skulu þær auglýstar með tryggilegum hætti, til dæmis með tölvupósti til nemenda, ella teljast kosningarnar ólögmætar. Framboðsfresti lýkur einni viku fyrir kosningar. Hægt er að framlengja framboðsfrest eins lengi og þörf krefur ef ekki hafa borist framboð í öll embætti. Kosning skal standa yfir í 12 tíma og ljúka samdægurs.

 

36. gr.

Að hausti, á fyrstu fjarnemahelgi vetrarins, skal stjórn Nemendafélagsins auglýsa lausar stöður í nefndum og ráðum og boða til kosninga þar um. Boða skal til kosninga með að minnsta kosti viku fyrirvara. Skulu þær auglýstar með tryggilegum hætti, til dæmis með tölvupósti til nemenda, ella teljast kosningarnar ólögmætar. Að jafnaði skal auglýsa eftir þremur fulltrúum í háskólaráð, þremur fulltrúum í gæðanefnd Nemendafélagsins, fulltrúa í íbúaráð fyrir hönd nemenda, fulltrúa í áfrýjunarnefnd, fulltrúa í jafnréttisnefnd, fulltrúa nemenda og varamann í deildarráð viðskiptadeildar, fulltrúa nemenda og varamann í deildarráð félagsvísinda- og lagadeildar, ásamt formanni og varaformanni Jakabólsráðs. Stjórn Nemendafélagsins er eftir sem áður heimilt að skipa í laus embætti úr hópi félagsmanna sem hafa kjörgengi að kosningum loknum.

 

37. gr.

Kosningarétt hafa allir félagsmenn Nemendafélagsins. Kjörgengi hafa allir félagsmenn er hyggja á áframhaldandi nám við skólann. Framboð skulu vera skrifleg og undirrituð eða staðfest í gegnum skólanetfang frambjóðanda. Auglýsa skal eftir framboðum minnst þremur vikum fyrir kjördag.

 

38. gr.

Kosningar skulu fara fram með rafrænum hætti og skal kjörstjórn sjá til þess að öllum kröfum um öryggi og skilvirkni sé fullnægt. Kosningar skulu vera leynilegar.

 

39. gr.

Stjórn Nemendafélagsins skal skipa þrjá aðila í kjörstjórn. Leitast skal við að gæta jafnræðis milli aðildarfélaga við skipan kjörstjórnar. Kjörstjórn skal sjálf kjósa sér formann, atkvæði formanns vegur tvöfalt ef atkvæði eru jöfn við afgreiðslu máls innan kjörstjórnar. Þeir sem sæti eiga í kjörstjórn hafa fyrirgert rétti sínum til framboðs í viðkomandi kosningum. Kjörstjórn skal skipa hið minnsta þremur vikum fyrir kosningar. Kjörstjórn skal skipuleggja kosningar og sjá um framkvæmd þeirra í samvinnu við stjórn Nemendafélagsins. Kjörstjórn skal gæta hlutleysis og er hún bundin þagnarskyldu um framgang kosninga.

 

40. gr.

Ef frambjóðandi er einn í framboði þarf hann 2/3 hluta greiddra atkvæða til að hljóta kosningu. Ef ekki hefur hlotist lögleg kosning í öll embætti skal auglýsa eftir framboðum í laus embætti eigi síðar en 10 dögum eftir að niðurstöður kosninga liggja fyrir og skal stjórn Nemendafélagsins skipa í lausar stöður úr hópi frambjóðenda. Náist enn ekki að fylla lausar stjórnarstöður skal kosið um þær að hausti sbr. 35. gr. laga þessara.

 

41. gr.

Kærur vegna kosninga skulu berast skriflega til kjörstjórnar eigi síðar en þremur virkum dögum eftir að kosningum lauk. Kjörstjórn skal kveða upp úrskurð um efni kæru eigi síðar en viku eftir að kærufrestur rann út. Kjörstjórn hefur endanlegt úrskurðarvald um efni kæru.

 

42. gr.

Komist kjörstjórn að því að kosning, í heild eða hluta til, hafi ekki verið framkvæmd samkvæmt ákvæðum laga þessara um framkvæmd kosninga, skal kjörstjórn boða til nýrra kosninga. Skulu framboð sem bárust vegna fyrri kosninga gild í slíkum kosningum. Skal boðað til nýrra kosninga eigi síðar en viku eftir að kjörstjórn skilar úrskurði sínum. Að öðru leyti skulu sömu reglur gilda um framkvæmd aukakosninga og aðalkosninga.

 

IX. kafli - Slit á félaginu.

 

43. gr.

Komi fram tillaga um að félaginu skuli slitið skal hún þá sæta sömu meðferð og tillaga til lagabreytinga, sbr. 43. gr. laga þessara. Eignir félagsins ganga til Háskólans á Bifröst til varðveislu þegar félaginu er slitið þar til nemendur stofna annað félag í sama tilgangi sem telst arftaki Nemendafélagsins og fær því eignir þess.

 

X. kafli - Breytingar og gildistaka.

 

44. gr.

Lögum félagsins má breyta á aðalfundi eða sérstaklega boðuðum lagabreytingafundi, boðuðum með 10 daga fyrirvara hið minnsta. Fundarboð lagabreytingafundar skal fara eftir 4. gr. þessara laga. 2/3 hlutar fundarmanna þurfa að greiða atkvæði með lagabreytingunni til að hún verði samþykkt. Stjórn er skylt að boða til lagabreytingafundar ef 10% félagsmanna óska þess. Stjórn er heimilt að boða til slíks fundar að eigin frumkvæði. Allir félagsmenn hafa rétt til að koma með tillögur að lagabreytingum. Tillögum til lagabreytinga skal skilað til stjórnar eigi síðar en 3 dögum fyrir boðaðan fund. Tillögur skulu auglýstar á tryggilegan hátt. Í fundarboði skal þess getið sérstaklega að tillaga til lagabreytinga verði tekin til meðferðar á fundinum og skal efni hennar lýst. Heimilt er á aðalfundi eða lagabreytingarfundi að koma með breytingartillögu við löglega framkomna breytingartillögu svo lengi sem tillaga fundarins breytir ekki efni upphaflegu breytingartillögunnar að upplagi. Lagabreyting öðlast gildi frá þeim tíma þegar hún er samþykkt á aðalfundi eða öðrum lagabreytingafundi. Á lagabreytingafundi skal fylgja almennum fundarsköpum.

 

45. gr.

Stjórn Nemendafélagsins getur skipað lagabreytinganefnd til þess að sjá um endurskoðun á lögum félagsins ef stjórn telur þörf á því. Skal nefndin skipuð þremur aðilum. Störf nefndarinnar skulu hefjast í síðasta lagi tveimur mánuðum fyrir áætlaðan aðalfund. Lagabreytinganefnd starfar í samvinnu við stjórn Nemendafélagsins og skal skila breytingartillögum til stjórnar Nemendafélagsins hið minnsta tveimur vikum fyrir aðalfund. Stjórn Nemendafélagsins tekur svo afstöðu til þess hvaða breytingartillögur verða lagðar fram. Skulu þær breytingartillögur sem stjórn ákveður að leggja fram sendar til félagsmanna um leið og stjórn Nemendafélagsins hefur tekið afstöðu svo félagsmenn Nemendafélagsins geti kynnt sér efni þeirra.

46. gr.

Lög þessi skulu ávallt vera aðgengileg á heimasíðu Nemendafélagsins og vera öllum félagsmönnum aðgengileg á þann hátt.

 

47. gr.

Áður en stjórn Nemendafélagsins lýkur störfum sínum skal hún yfirfara lög þessi og athuga hvort megi gera á þeim bót. Lagabreytingar fara svo fram skv. lögum þessum.

 

48. gr.

Lög þessi öðlast þegar gildi og falla eldri lög Nemendafélagsins úr gildi.

 

Lög þessi voru samþykkt á lagabreytingafundi á Bifröst þann 15. maí 2020.